Jazney Glitter De la gell.com

þriðjudagur, mars 08, 2005

Vor

Við Siggi áttum vægast sagt yndislega helgi hérna í Kaupmannahöfn. Sólin skein allan tímann en því miður var mikið frost og því mjög kalt. Nú er hann farinn og það er bergmál í herberginu mínu....

Við fórum í mat til Guðrúnar frænku hans Sigga, sem er reyndar núna á leiðinni til Afríku í Górilluferð, á fimmtudagskvöldinu. Á föstudeginum kíktum við í bæinn um daginn og svo út á lífið um kvöldið. Kristín og Erla Dögg voru að koma til Kaupmannahafnar til þess að hitta gamla vini og við mældum okkur mót við þær.

Eftir það var farið á rokkna djamm sem endaði með því að Siggi og Trevor (herbergisfélaginn minn) stútuðu 5 lítra bjór-Turni með dælu á 15 mínútum og stálu svo á endanum turninum af skemmtistaðnum með miklum tilþrifum. Ég hef sjaldan upplifað svona fyndið móment á ævinni.

Núna eigum við Trevor hinsvegar í forræðisdeilum yfir turninum, semsagt ég vil fá hann til Íslands eftir dvölina hérna en hann vill taka hann með sér til Hawaii. Sjáum til hvað setur en ég set myndir inn á síðuna, vonandi á morgun.

Á laugardeginum tókum við daginn snemma horfðum á fótboltaleik og gengum um Strikið. Á sunnudeginum átti Siggi afmæli og við elduðum okkur fínan kjúkling í hádegismat og drukkum rauðvín. Borðuðum afmælisköku í kaffitímanum þar sem allir sungu afmælissönginn fyrir Sigga á sínu tungumáli. Fórum svo út að borða á Nýhavn um kvöldið, röltum okkur svo heim með einu bjórstoppi.

Svo fór hann í gærmorgun með krakkana hennar Guðrúnar til Íslands. Við Guðrún sóðum á flugvellinum og vinkuðum báðar með grátstafina í kverkunum..... meðan fólkið í tollinum hristi hausinn yfir okkur. Kristín og Erla Dögg komu svo í heimsókn um kvöldið með strákahjörðina og við sátum á spjalli langt fram á kvöld.

En Í morgun gerðist eitthvað mjög undarlegt, hitinn fór upp fyrir frostmark og allt í einu fór að heyrast fuglasöngur. Ég hjólaði í skólann og mér var heitt... og ég þurfti ekki einu sinni að vera með vettlinga þetta er eitthvað sem ég hef ekki upplifað hérna áður. Það var eins og það væri búið að vekja garðyrkjumennina frá vetrarblundinum og þeir stóðu uppi í tröppum og klipptu trén og götusóparinn var farinn að sópa gangstéttina. Ég átti ekki til orð og hjólaði beint heim eftir skóla og ákvað að taka þátt í þessu vor æði í Kaupmannahöfn. Ég dreif mig út með sápu og bón og þreif dýrgripinn.

Ég er semsagt búin að þrífa hjólið og það er orðið rosa fínt tilbúið að takast á við saltminni daga.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home