Jazney Glitter De la gell.com

föstudagur, janúar 28, 2005

Fundin

Eftir að hafa eytt fyrstu dögunum mínum í Kaupmannahöfn hef ég komist að því, eftir að vera nánast búin að vera týnd frá því að ég kom hingað, að það er mun hagstæðara bæði tímalega og orkulega, að vera með kort í vasanum.

Kaupmannahöfn er æðisleg og mér líður afar vel hérna, umhverfið er gott og margt er að sjá. Síðan ég kom hingað hef ég verið í kynningarviku í skólanum og það er rosalegt prógramm allan daginn, fram á rauða nótt. Það er alveg ótrúlegt hvað er haldið vel utan um skiptinemana hérna og passað upp á að þeir komist vel inn í skólalífið.

Halla kom í heimsókn til mín á fimmtudaginn og ég hef verið á fullu að sýna henni borg, sem ég þekki varla sjálf, en læri betur á í hvert sinn sem ég týnist.

Erum í kósí stemmara með DVD og nammi gersamlega búnar að labba af okkur rassinn í þessari blessaðri borg og upp þessa geggjuðu stiga.


þriðjudagur, janúar 25, 2005

Fyrsta nóttin.....

Eftir langan dag og hvorki meira né minna en 89 tröppur upp í herbergið mitt er ég loksins komin heim á leið upp í rúm... í fyrsta sinn....

Mér er svo kalt og mér vantar svo hann Sigga minn til mín....

En ég er sterk og valdi mér þetta ástand sjálf því keypti ég mér flísteppi og dúnsæng í IKEA og er á leiðinni upp í rúm. Einnig keypti ég mér batteríljós sem lýsir fyrir mig upp herbergið en eins og besta fólk veit þá á ég við smá myrkfælni að stríða. Vonandi gengur þetta vel....

Góða nótt öllsömul....

sunnudagur, janúar 23, 2005

Fall er fararheill

Þegar ég steig út af flugvellinum stóð Buddyið mitt með spjald í hendinni þar sem nafnið mitt stóð. Góðleg listaspírutýpa í rauðum jakka, röndóttan trefil með hálfaflitað hár og rót. Við tókum lestina og strætó til þess að komast á nýja heimilið mitt. Mér leist nú ekki á blikuna þegar ég stóð frammi fyrir fjöldann allan af stigum upp á efstu hæð þar sem herbergið mitt er..... á fimmtu hæð. Á morgun ætla ég að telja tröppurnar sem ég þurfti að bögglast upp með ALLAN farangurinn.... fór strax að sakna hans Sigga míns.

Þegar á efstu hæðina var komið eftir blóð, svita og tár við að bögglast upp tröppurnar opnaði ég herbergið mitt sem er flennistórt rími einungis með einu mjög litlu rúmi, smá borði og stól. Rimlagardínan var í klessu á gólfinu, veggirnir allir með brúnum slettum og gólfið þakið í mold. Really cosy.....

Þannig ég kvaddi buddyinn minn og fór að þrífa. Ég ryksugaði gólfið mitt og skúraði það og þreif sletturnar af veggjunum. Þegar það var búið gekk ég fram með ryksuguna í höndunum til þess að skila henni á sinn stað. Þegar ég gekk út skelltist herbergishurðin á eftir mér og ég stóð lyklalaus frammi á gangi á 5. hæð með ekkert nema ryksugu. Nú voru góð ráð dýr og ég vissi ekki hvað á mig stóð veðrið.

Eftir að hafa legið á dyrabjöllunni inn í íbúðina mína (þar sem fleiri búa en ég) kom loksins spænsk stelpa til dyra og ég fór nánast að gráta því ég var svo fegin að sjá hana. Hún leifði mér að hringja en hvert átti ég að hringja ég var númeralaus og símalaus og peningalaus og allslaus. Ég sá að hún var með fartölvu og Thank God for MSN komst online og náði í Guðrúnu frænku hans Sigga í gegnum það, hún býr í Köben með börnunum sínum og á bíl. Hún lofaði mér að koma í einum grænum að aðstoða mig við það að redda aukalykli hjá skólanum.....en var hann opinn.... það var laugardagur....

Þegar ég kvaddi greyið spænsku stelpuna sem nota bene vissi ekki hvaða frík þetta var sem ruddist inn á hana, spurði hún mig hvort ég þekkti ekki Erlu. Hún sagðist að Erla Dögg hafi verið búin að segja sér að vinkona sín frá Íslandi væri að koma og í þetta sinn bjargaði þessi Spænski engill lífi mínu.

Þegar Guðrún kom brotnaði ég gersamlega niður, bæði vegna þess að ég var svo fegin að sjá hana og vegna þess að ég vissi ekkert hvernig ég ætti að komast inn í herbergið mitt þar sem allt dótið mitt var. En til að gera langa sögu stutta þá reddaði ég á endanum lykli til þess að opna herbergið mér til mikillar ánægju og gisti svo hjá Guðrúnu verndarenglinum mínum um nóttina hékk með henni í dag og verð aftur hjá henni í nótt.....

Þvílíku ævintýrin..... greinilegt að ég á margt eftir ólært í því að standa á eigin fótum.


laugardagur, janúar 22, 2005

Komin til Köben

Eftir mikið stress og læti undanfarna daga small nánast allt saman hjá mér klukkan sjö í morgun þegar ég steig upp í flugvél og leið mín á vit ævintýranna í köben hófst. Þreytt, ringluð og ráðavillt gekk ég í flugvélina hálf vönkuð eftir að kveðja hann Sigga minn á flugvellinum.

Nú er komið að þessu.... fyrsta tilraun mín til þess að flytja að heiman er hafin.

Fylgist með ævintýrunum........