Jazney Glitter De la gell.com

þriðjudagur, desember 28, 2004

Jólin Jólin

Gleðileg Jól öllsömul....sendi engin jólakort í ár, var á haus í skólanum og vinnunni, og missti af því að senda jólakort, þannig þeir sem koma og lesa bloggið mitt, takk fyrir allt það liðna á árinu og sjáumst hress á næsta ári.

Aðfangadagur var frábær, Só sys þurfti að mæta í vinnu klukkan átta um kvöldið og því ákvað fjölskyldan að halda jólin á svona speed modi, Sólvör hjálpaði vel til því hún var svo spennt að ég hafði ekki við að opna pakka sem bárust mér. Á endanum náðum við að borða og opna alla pakkana fyrir klukkan átta, só sys til mikillar ánægju. Eftir það var legið á meltunni og beðið eftir að normal fólkið kláraði að opna pakkana.

Kallinn gaf mér fallega Ecco skó, ótrúlegur smekkmaður sem ég náði mér í. Svo erum við búin að liggja yfir Lordinu um jólin, ég svo hagsýn að gefa honum Lordið sem bæði ég og hann getum notið:)

Nú tekur við undirbúningstímabil fyrir ferð mína til Kaupmannahafnar. Er að gera To Do lista og skipuleggja mig geggjað til þess að ná að gera allt áður en ég fer. Annars lítið af frétta annað en jólaboð, sjónvarpsgláp og sælgætisát.

Þangað til seinna...

mánudagur, desember 20, 2004

Kringlan að springa

Kringlan er orðin rafmögnuð tímasprengja sem telur á ógnarhraða niður síðustu mínúturnar sem verslanir eru opnar. Múgur og margmenni ryðjast áfram eftir göngunum í þeirri von um að eyða meiri pening í neyslu og gjafir því ekki er hægt að festa svefn að kveldi fyrr en yfirdrátturinn er kominn í botn. Þvílíka kaupæðið fyrir þessi jól eins og kannski mátti búast við eftir að flestir Íslendingar hafa endurfjármagnað lánin sín plús smá viðbót fyrir sjálfan sig í neyslu.

Hvar endar þetta...og ennþá eru fjórir dagar til jóla og ég ekki byrjuð að kaupa.

En Siggi er búin í prófunum... jibbííjeiiiii

laugardagur, desember 18, 2004

Puð

Maður er svo einfaldur, heldur því fram að grasið sé ávalt grænna hinumegin við lækinn.

Búin að kvarta yfir því að sitja á rassgatinu og lesa, hef séð það í hyllingum að fara að vinna og ekki hafa áhyggjur af neinu. Svo mætir maður í geðveikina í Kringlunni á 12 tíma vaktir og þá áttar maður sig á að það er alveg jafn gott að sitja og læra.

Maðurinn er bara með þann feil í forritun heilans að vera alltaf óánægður með það sem hann hefur og girnast alltaf það sem hann hefur ekki. Einkennilegt hvað maður getur verið fatlaður.

Annars er í Brim um jólin ef eitthver vill kíkja í heimsókn.

föstudagur, desember 17, 2004

Sumir heppnari en aðrir, því miður

Frábært....
Jólin mega loksins koma...Kláraði prófið í gær og þvílíki léttirinn... segi nú ekki að ég hafi staðið mig neitt glimrandi vel, en ég kláraði prófið og gerði það ágætlega. Vesta var að ég gleymdi símanum mínum í prófinu og því hefur verið ómögulegt að ná í mig.

Fór í Víðihvamminn og fékk aðstoð góðra manna við að strauja tölvuna mína... trítlaði svo heim og stein sofnaði. Ég sem ætlaði að hitta stelpurnar en eftir stressið og álagið þá bara mótmælti líkaminn.

Því miður þarf hann Siggi minn að vera í prófi núna... og ég er með alla mína orku að hugsa honum góðs gengis. Ekki nóg með það þá þarf hann að hanga inn í svitafílunni og táfílunni á Þjóðarbókhlöðunni fram yfir helgi. Eina jákvæða er það að lyktin hefur aðeins skánað því það hefur fækkað mannskapnum þar, hvort það sé nú jákvætt eða neikvætt fyrir hann má liggja á milli hluta (ömurlegt að horf á eftir öllum út í jólaskapið á meðan maður sjálfur er fastur inni).

Jæja nú er bara að mæta í vinnuna...

fimmtudagur, desember 16, 2004

Síðasta prófið

Jæja núna eru fjórir klukkutímar í síðasta prófið mitt árið 2004, Get vart beðið eftir að stimpla mig út af þjóðarbókhlöðunni og leyfa jólastressinu að ganga inn í líf mitt þetta árið.

Wish me luck!!!

þriðjudagur, desember 14, 2004

1 to go

Hinn mikli áfangi er búin, stærsta og erfiðasta prófið er yfirstaðið. Gekk bara fínt vona ég, það reyndar kemur bara í ljós, en held að ég hafi nánast rúllað þessu upp.... Það þýðri að ég er búin með þrjú próf í HÍ og á eftir eitt sem er á fimmtudaginn...

Get vart beðið eftir að komast í jólafrí... á geggjað skilið að komast í jólafrí... finnst mér ásamt litlu sys.

Best að þrauka síðustu metrana og reyna að halda sér við efnið....

mánudagur, desember 13, 2004

Hver er sinnar gæfu smiður

Andrúmsloftið á Þjóðarbókhlöðunni er orðið mettað af táfýlu og svitalykt. Samt sem áður kemur maður hingað og baðar sig í ógeðinu og vonast til þess að ná að einbeita sér....

Fólkið í kringum mann er eitt af öðru að klára prófin og hleypa jólastemmingunni inn í líf sitt...en ennþá eru fáeinir dagar í mig, maður verður bara að trúa því að þetta klárist og að það sé þess virði að hanga hérna og hamra fræðin inn í hausinn á sér....

Vinir og kunningjar eru alveg hættir að eyða orkunni í að reyna að hafa samband við mig... Hvort það sé vegna þess að ég sé svo leiðinleg eða vegna þess að ég hef ekki frá neinu skemmtilegu að segja, má vel liggja milli hluta....

Jidúddamía hvað verður gott að vera búin og skríða út úr þessari rottuholu hérna vestur í bæ....

laugardagur, desember 11, 2004

Próf; taka 1

Rannsóknarefni dagsins: Komast að því hvernig er að taka próf í HÍ

Átti að mæta í aðferðafræðipróf eftir hádegi í dag. Só sys hin mikli snillingur, fór að læra og skildi bílinn eftir heima svo ég gæti mætt í prófið á honum. Mér til mikillar skelfingar, rétt áður en ég labbaði út úr dyrunum, sá ég að það voru engir lyklar heima. Bjallaði í litla varginn en hún hafði "óvart" sett þá í töskuna sína og ekki nóg með það þá voru varalyklarnir læstir inn í hanskahólfinu á bílnum...

(hún misskilur þetta eitthvað, heldur að það til að komast í gegnum klásusinn þurfa ALLIR í HÍ að fá lægri einkunn en hún.... þessi oflærdómur er greinilega ekki að gera mikið gott fyrir hana!!!)

Á endanum komst ég í prófið móð, sveitt og skjálfandi úr stressi yfir því að verða nánast of sein.

Prófið gekk og niðurstöður dagsins eru þær að það er ekkert öðruvísi að taka próf í HÍ!

Þrái ekkert heitar en að setja upp jólaskraut og lesa skemmtilega bók langt frá stressi og kvöðum skólans, einbeitingin er því ekki alveg þar sem hún á að vera.

föstudagur, desember 10, 2004

Hjartað pumpar hraðar

Nú þegar það eru 21 klukkutími í fyrsta prófið mitt í Háskóla Íslands get ég ekki sagt annað en að hjartað sé farið að taka all fleiri slög, ekki það að ég sé svo stressuð heldur er er þetta hefð að vera á tánum fyrir próf og segja við sjálfan sig að maður sé nú í djúpum skít....

Ljúft verður það á fimmtudaginn næsta....

Svo beið mín all mikill glaðningur heima í gær. Mér til mikillar undrunar var bréf til mín á kommóðunni þegar ég kom heim í gærkvöldi eftir maraþon lærdóm einn daginn enn. Bréfið var ekki svona venjulegt "reikninga" bréf heldur stórt A4 umslag sem kom mér mikið á óvart. Ég opnaði það kæruleysislega meðan ég var að fylgjast með endursýningum á skjá einum, með annað augað límt á skjánum las ég í kæruleysi innihald bréfsins.

Þar stóð...mér til mikillar undrunar.... Okkur er sönn ánægja að tilkynna þér að þú hefur hlotið styrk frá okkur til að stunda nám í Kaupmannahöfn vor 2005. Ég svelgdist á munnvatninu og tók andköfum. Á öllu öðru átti ég nú frekar von á en því að fá styrkinn... ég sótti um hann 3 mánuðum of seint í kæruleysi, fattaði ekki að ég væri orðin of sein fyrr en ég var búin að skila. En viti menn... allt getur nú gerst.

Yndislegt hvað kallin lifir lengi á hamingjunni um að Liverpool vann...

Hjartað hefur því margar ástæður fyrir öllum aukaslögunum....

fimmtudagur, desember 09, 2004

Glerhúsið í mýrinni

Eftir upplifunina mína í gær og barninginn upp tröppurnar ákvað ég að reyna að haga mér eins og fullorðin manneskja og valdi annan stað til að læra á. Notaði því tækifærið svaf aðeins lengur og mætti í öskju rétt rúmlega níu... gerði engan vegin ráð fyrir að fá borð, en viti menn, lesaðstæðan er nánast tóm... Geðveikin á þjóðarbókhlöðunni hefur greinilega ekki smitast hingað mér til mikillar ánægju.

Samt sem áður einkennilegt að heil lesaðstæða sé nánast tóm hérna á háskólasvæðinu meðan það er barist um borðin í öðrum byggingum, ætli þetta segi ekki meira en þúsund orð um skoðun nemenda á þessari byggingu.

Só sis er í prófi og ég hugsa stíft til hennar.

Kannski að verða komin tími til að fara að gera eitthvað af viti svona fyrir hádegismat...

Yfir og út

miðvikudagur, desember 08, 2004

Þjóðarbókhlaðan í ham

Rafmagnsmettað andrúmsloftið á Þjóðarbókhlöðunni er ekki uppáhaldið mitt þessa stundina....Í kapp við klukkuna safnast saman fjöldi fólks rétt rúmlega átta sem skríður undir hurðina um leið og hliðið opnast.... í þeirri einu von um að ná sætinu "sínu" aftur þennan daginn.... á meðan maður horfir á hugraða úlfana spretta upp stigann á Þjóðarbókhlöðunni í von um að vera fyrstir, gerist það ósjálfrátt að þú hrífst með straumnum og ferð að labba hraðar.... þó svo að það skipti engu máli hvaða sæti maður fær, svo lengi maður fær borð. En samt byrjar maður að hlaupa til að vera í stíl við hina brengluðu, stressuðu og umframalt oflesnu samnemendur.

Svo kemur maður upp.... Eins og fyrri daginn er nóg af lausum borðum þó svo að maður var númer 56 upp tröppurnar....

Vonandi fer þessari fávitanlegu keppni um "aðal sætin" á þjóðarbókhlöðunni að ljúka.... áður en vissir aðilar hérna inni missa vitið og verða lagðir inn.

Vesta er að ég átta mig ekki á því að ég er ein þeirra ásamt litlu sys.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Prófundirbúningurinn að gera það gott

Jæja nú er prófundirbúningurinn í algjöru hámarki og því viðeigandi að eyða smá tíma í það að dusta rykið af gömlu bloggi, færa það yfir í nýjan búning og skrifa smá þankagang inn á það. Þannig er nefnilega í pottinn búið að ég er að fara að flytja til Kaupmannahafnar eftir áramót og því er það afar nauðsynlegt að bygja að blogga aftur, helst í miðjum prófalestrinum. En þið sem hafið verið í skóla lengi vitið að einbeitingin gefur sig vanalega þegar mest á reynir......


En svona er þetta bara..... vonandi fagna einhverjir því að ég sé farin að kvá og kveina hérna aftur.

Skál fyrir því...