Jazney Glitter De la gell.com

mánudagur, febrúar 28, 2005

Upptekin skvísa

Jæja spurning um að láta í sér heyra áður en þið haldið að ég sé hætt að blogga. Ég skemmti mér alveg konunglega hérna í Kaupmannahöfn. Skólinn er farinn að þyngjast og um að gera að reyna að fara að leggja aðeins á sig svo hlutirnir fari nú vel á endanum.

Siggi er að koma í heimsókn til mín á fimmtudaginn og ég get vart beðið. Er að reyna að skipuleggja allt sem þarf að gera áður en hann kemur sem og kaupa handa kauða afmælisgjöf.

Veðrið hérna breytist lítið, snjóaði heilan helling í dag, ég labbaði niður á Strik til að lítast aðeins um, eftir að hafa sofið yfir mig í morgun og fór því ekkert í skólann í dag. Ekki að skólinn sé mikið að trufla mig, ég er í tíma klukkan átta á mánudags og föstudagsmorgnum og svo er ég í hádeginu á þriðjudögum. Búin með fyrirlestrana í einu námskeiði og svo kemur síðasta námskeiðið inn eftir páska. Það er meira verið að leggja upp úr því að maður lærir sjálfur heima hjá sér...... skilst mér.......

En allavega endalaust mikið að gera hjá mér... ég hef þann hæfileika að finna mér alltaf eitthvað að gera þó svo að ég sé ekki með neitt að gera.... rosa fínt... mér leiðist þá ekki á meðan

Ætla nú að halda áfram að lesa Engla og djöfla svo Siggi geti tekið hana með sér heim og létt á ferðatöskunni minni.

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Kuldi

Mikið er kalt í þessu landi, er farin að hallast að því að það sé kaldara hérna heldur en heima.... þetta er ekki mönnum bjóðandi....

Fór í skólann í dag.... gera verkefni, meikaði samt ekki að vakna í morgun, var að djamma til 5 í morgun og var ekkert sú hressasta í hópvinnunni, en náði alveg að halda andlitinu og afrekaði heilan helling. Gekk svo heim og hríðskalf... ætla að reyna að ná smá hita í líkamann.... halla mér og gera eitthvað uppbyggjandi eins og að horfa á sjónvarpið, jafnvel kíkja út.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Jótland

Fór á Jótland um helgina, tók lestina seinnipartinn á föstudaginn og Anna, dönsk vinkona mín frá Ástralíu, tók á móti mér þremur klukkutímum síðar á brautarpallinum í Árhúsum. Hún var í þessu rokkna stuði, það var víst búið að vera hátíð í skólanum hennar frá því um morguninn, því kom ekkert annað til greina en að skella sér beint í partí.... Ég eins mikil prinsipp manneskja og ég er fannst það nú ekkert allt of góð hugmynd... vildi nú allavega fá að skila töskunni minni heim til hennar.... En Danir eru sko ekkert að stressa sig yfir hlutunum.... og ég endaði því á djamminu með fullan bakpoka af fötum á bakinu. Þetta var bara gífurleg stemming og ég var frekar sátt með hve vel gekk að brjóta upp prinsippin mín.

Á laugardagsmorgninum, eftir vægt sagt lítinn svefn, var farið í lestina og ferðinni heitið til Silkiborgar, þar beið bróðir Önnu og tók okkur á vesturströndina, nánar tilgetið Trans. Það sem kom mér á óvart þegar við keyrðum þvert yfir Jótland var að við keyrðum nánast allan tímann yfir umferðarljós og hringtorg... Við fórum aldrei "út úr bænum" ótrúlegt hvað Danir eru búnir að byggja þétt...

Trans er lítið sjáfarþorp og þar á fjölskyldan hennar sumarhús sem stendur við sjóinn. Gaflinn á sumarhúsinu var allur úr gluggum sem vísuðu yfir sjóinn. Þetta var rosalega flott hús með púlborði og hátæknilegri sturtu, sem hægt var með innbyggðu útvarpi, gufubaði sem og nuddtæki, fyrir fætur, bak og höfuð. Fjölskyldan hennar eins og fjölskyldur vilja oft vera kammó... keyptu náttúrulega síld og rúgbrauð til að hafa í hádegismat fyrir Íslendinginn sem og mjög einkennilegt íslenskt brennivín. Ég fölnaði þegar ég sá þetta en vildin náttúrlega ekki láta grípa mig í bólinu, því litla prinsessan borðar hvorki rúgbrauð né síld, hvað þá drekkur brennivín.... Ég þrýsti tungunni upp í góm og borðaði bæði síld og rúgbrauð á laugardaginn.... get nú ekki sagt samt að ég ætli að leggja þetta upp í vana minn.

Daginn eftir fór ég með Önnu og systkinum hennar heim til foreldra þeirra í Vejle. Þau eru svínabændur með rosalega stóra útgerð. Við fengum þar rosalega flotta grísasteik og höfðum það notalegt.....þar til mamma hennar sagðist hafa þekkt þennan grís sem við vorum að borða persónulega... ha sagði ég?? þá fór hún að lýsa því þegar þetta svín sem við vorum að borða fæddist... því það vantaði á það afturfætunar.... ég alveg fölnaði og kúgaðist.... og hún hélt áfram að lýsa því í uppvextinum og hvernig það fitnaði og varð svo góður vinur hennar.... því miður talaði hún á ensku svo ég gat ekki þóst ekki skilja hana.... og svo endaði þetta með því að hún drap grísinn sjálf því sláturhúsið vildi hann ekki.... og svo brosti hún.... og sagðist að við værum að borða hann núna. Ég vissi ekki hvað á mig stóð veðrið en ég reyndi að láta þau ekki taka eftir því.... þorði ekki að leyfa en skar fituna gróflega af þannig helmingurinn af kjötinu var á henni.... Ég brosti og reynd að telja upp í tíu.....

Fór heim um kvöldið með lestinni og var komin heim til mín eftir miðnætti....

mánudagur, febrúar 14, 2005

Líf hjólreiðamannsins

Jæja eftir að vera búin að taka út allsvaðalegt nammitímabil þá fór ég inn í eldhús og skar niður ávextina sem hún Jóhanna keypti handa mér... Þannig ég sit núna inn í herbergi og svolgra í mig fullri skál af skornum ávöxtum og þeir eru ótrúlega góðir.

Búið að snjóa heilan helling hérna í Danaveldi... samt ekkert mikið sem helst á jörðinni. Ég er samt sem áður búin að vera í togstreitu við sjálfan mig hvort ég ætti að hjóla í skólann í dag eður ei...því maður er náttúrlega ekki á negldum :) fyndið þetta líf að vera hjólreiðamaður.

Ég tók samt sem áður þá ákvörðun að fara á hjólinu í morgun, klæddi mig vel og fór í mögnuðu Ecco skóna mína, sem halda frá allri bleytu, tók með mér poka... því eins og þeir sem hafa ferðast um á hjóli eftir snjó eða rigningu vita, þá blotnar maður á rassinum ef maður setur ekki poka á hnakkinn, því hnakkurinn er eins og svampur.

Eftir að hafa skoppað niður allar tröppurnar 89 og út í bakgarð þar sem hjólið stendur, sá ég, mér til mikillar undrunar að hjólið var á kafi... einhver hafði verið að moka planið og sett allan snjóinn yfir hjólin. Þannig ég byrjaði á því að klöngrast yfir skaflinn til að komast að hjólinu og opna það... því næst fór ég niður á fjórar fætur til að blása í lásinn því það var náttúrlega allt frosið fast. Ég losaði hjólið og bakkaði því út úr skaflinum til þess að skafa allt snjófrostið af því. Síðan hélt ég af stað í slabbinu og drullunni í skólann.

Lærdómur dagsins.... Það þarf líka að fara fyrr út til þess að skafa hjól eins og bíla.... einnig tjaran og vibbinn sem er utaná skítugu bílunum spýtist beint á hjólreiðarmenn eins og hina bílana og því þurfa hjólreiðarmenn að þvo mun oftar fötin sín heldur en fólk sem fer einungis út til þess að fara inn í bílinn og útúr honum.

Æðislegt hvað lífið er yndislegt, alltaf að sýna manni sömu hlutina frá öðru sjónarhorni.

laugardagur, febrúar 12, 2005

Ófærð

Fór á sýningu í dag með Íslenska hestinum. Guðrún, Klara og Daníel sóttu mig stuttu eftir hádegi.

Frekar fyndið... Guðrún lagði upp á kannt meðan við leituðum á korti hvar sýningin átti að vera... svo skelltu krakkarnir uppúr í aftursætinu... þá vorum við allt í einu inn í miðri blysreið sem var á leið í hallargarðinn, og hestar allt í kringum okkur, frekar fyndin tilviljun. Einkennilegt samt að sjá hesta inn í stórborg... horfa á Íslenska hestinn stoppa á rauðu gangbrautarljósi... og fara svo yfir á grænum kalli... svona hálf ónáttúrulegt.

Blysreiðin var frekar sorgleg, fyrst kom hópur hestamanna og gangandi fólk með kyndla, um hábjartan dag, svo stuttu seinna kom einn og einn yfir gangbrautina langt fyrir aftan... svo sá maður kyndlafólk vera að snúast um sjálfan sig, leitandi að stóðinu og vissi ekkert hvert það var að fara... eða í einu orði sagt var þetta frekar misheppnað... ekki skánaði þetta í hallargarðinum því þar var enginn áhorfandi nema við, kannski sem betur fer því það var einungis einn hestur þarna á gangi... hinir voru allir á einhverri gangleysu.... frekar sorglegt... en þetta voru danskir áhugamenn um íslenska hestinn, og ekki stakur maður sem talaði Íslensku þarna. Svo fórum við á sýninguna sjálfa en komumst fljótt að því að við höfðum ekkert að gera þar því einungis var verið að reyna að plata fólk til að kaupa hestaferðir á Íslandi.

Búið að snjóa heilan helling hérna í dag... Ekkert mikið, mikið, en það er svona 2 sentimetra snjór á götum borgarinnar. Danir taka nú lífinu ekkert alltaf með ró, því þeir lýstu yfir í fréttatímanum áðan að það væri ófærð og fólk ætti að halda sig innandyra... þvílíkt og annað eins stress....við Guðrún sprungum úr hlátri yfir þessari fréttatilkynningu.

Annars er ég og Klara búnar að hafa kósí kvöld, er að passa fyrir Guðrúnu. Byrjuðum á því að elda pitsu og svo svæfðum gríslingana og hökkuðum svo í okkur nammi og kók yfir bíómynd.

Snilldar Kokkur

Jæja síðan ég var skilin eftir hérna ein í þessari stóru ógurlegu borg, eftir að allir gestirnir mínir fóru, hef ég lítið annað gert en að hakka í mig sætindi. Fór út í búð og keypti mér 12 flödeboller og tvo hlauppoka og náði að troða þessu í mig á mettíma.... Það er bara eitthvað við það að vera ein, langt í burtu og að langa í sætindi....

En átti frábært kvöld. Birna bauð mér í mat heim til sín, mér til mikillar ánægju (komin með leið á Nutella, fransbrauði og frönskum kartöflum, vantaði smá kjöt í mallann) Hún er þvílíkur snilldar kokkur, eldaði handa mér og Þorsteini Má, frábæran pestó kjúkling. Í sameiningu borðuðum við á okkur gat og færðum okkur þá í stofuna þar sem við lágum yfir vídjói og hökkuðum í okkur MEIRI sætindi.... Hvar endar þetta... eflaust í óteljandi bólum.... Veltist svo út í strætóskýli og tók síðasta strætó heim.

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Alvaran tekin við

Nú er gestagangurinn yfirstaðinn... því miður. Þetta er búið að vera alveg frábært að hafa svona marga í heimsókn, en ætli það sé ekki komin tími til að horfast í augu við einmannaleikann....

Teingdaforeldrar mínir eru búnir að vera hérna hjá mér ásamt Rúnu litlu og það var alveg æðislegt að hafa þau. Við Jóhanna fórum á Strikið meðan Halldór og Rúna fóru í dýragarðinn og svo var farið út að borða og haft það gott. Rúna gisti hjá mér en Jóhanna og Halldór voru á hóteli sem er beint á móti húsinu mínu. Lil sys var hérna á undan þeim og náðum við einnig að bralla margt saman og skemmta okkur all svaðalega.

En núna er ekki von á neinum fyrr en í byrjun mars því þá kemur hann Siggi minn. Þegar ég var búin að kveðja Jóhönnu, Rúnu og Halldór fékk ég svona sting í hjartað... búin að hafa einhvern hjá mér nánast frá því að ég kom hingað og allt í einu var gamanið búið. Frekar leið yfir því að ana í svona vitleysu ein.... fara svona ein til útlanda, í svona langan tíma... það hljómar rosa vel þegar maður er ennþá á Íslandi en þegar á hólminn er komið þá er þetta drulluerfitt.... En þegar ég var orðin föst í sjálfsvorkunninni hringdi bjargvætturinn minn.... Haldið þið að Kristján hafi ekki verið í Köben og hann bauð mér út að borða í gærkvöldi ásamt vinnufélögum sínum.

Við fórum út að borða á Mexikanskan matsölustað sem var hrein og bein snilld. Maður sat í grashúsi með blómum og borðaði af hringborði sem snérist, en það var með áfasta bjórdælu... Þessi staður var snilld og við skemmtum okkur konunglega. Eftir matinn var ferðinni haldið á Karókí bar og slegið á létta strengi :)

Langt síðan ég hef skemmt mér svona vel.... Takk fyrir mig

mánudagur, febrúar 07, 2005

Tónleikar

Ég fór með Sóleyju og Elfu á tónleika með Eivöru Pálsdóttur í Loppen í Christianiu í gærkvöldi. Tónleikarnir voru hrein og bein snilld. Við komum inn í salinn og allir fengu stóla og borð og á þeim var kerti. Stemmingin var rosa kósí og svo kom Eivör upp á svið í skósíðri peysu og á tásunum og röddin sem manneskjan er með er yfirnáttúruleg, vá hvað var magnað að horfa á hana. Skemmti mér alveg konunglega.

Sóley er að fara til Elfu í dag og Jóhanna, Halldór og Rúna koma til mín seinnipartinn í heimsókn að skoða hjá mér.

Við Sóley erum að fara niður í bæ að kíkja á kjóla.... Endilega farið inn á myndasíðuna bráðlega, er að fara að henda inn nokkrum myndum af pleisinu.




sunnudagur, febrúar 06, 2005

Ísland í mýflugumynd

Eftir að hafa fengið að stíga eitt augnablik inn í verndaða líf mitt á Íslandi, er ég komin aftur út, þreytt, ringluð og skilningsvana.

Mikið var gott að koma heim í steikur og næringarríkan mat í faðmi fjölskyldunnar. Dvölin á Íslandi leið bara allt of hratt og fyrr en varði var ég komin aftur í flugvélina á leið út. Í raun voru þetta bara tvær nætur og einn dagur sem ég átti á Íslandi því skólinn kallaði.

Framadagarnir tóku sinn tíma... reyndar heppnuðust þeir alveg frábærlega og það er alveg stórkostlegt að sjá svona mikla vinnu smella saman og verða að þessum frábæra degi. Á milli þess sem ég var að stússast útaf Framadögunum kúrði ég mig inn í bringuna á honum Sigga mínum og reyndi að njóta stutta tímans sem ég hafði með honum.

Við Siggi áorkuðum að setja saman lokaskipulag fyrir ferðina miklu og nú er ekkert annað en að kaupa miða. Jibbíííjeiiii

Lil Sys kom með mér út í morgun til að skoða aðstæðurnar, einnig komu "systur og svilar" til að leggja blessun sína á Danaveldið.

Ég er komin heim að sofa en skyldi Lil Sys eftir niðri í bæ á tjúttinu með Elfu og þær ætla svo að koma og gista hérna hjá mér í nótt..... ég bara get ekki meira.... uppgefin eftir alla keyrsluna undanfarna daga....

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Á leið á klakann

Jæja góðir lesendur.... eða þeir sem ekki hafa gefist upp á að lesa bloggið mitt bæði vegna þess að ég skrifa sjaldan og svo er þetta ekkert rosalega skemmtileg skrif. En fyrir þá sem kíkja ennþá hingað inn þá er ég að koma heim á morgun. Mér er farið að hlakka mikið til að sjá alla sem og að knúsa ástina mína.

Ástæðan fyrir því að ég er að koma heim er ekki vegna þess að mér leiðist síður en svo, ég hef það reyndar alveg ótrúlega gott hérna. Ég var Markaðstjóri Framadaga og hef unnið að því verkefni síðan í haust. Dagarnir verða 4. febrúar á Hótel Sögu og ráðlegg ég öllum að fara. Ég er semsagt að koma til þess að vera viðstödd þennan árlega viðburð og ég get vart setið úr spenningi. Kíkið á www.framadagar.hi.is

Önnur ástæða fyrir því að ég get ekki setið er sú að ég var að kaupa mér hjól..... Það að kaupa sér hjól í Danmörku þýðir ekki að skilja það eftir inni í bílskúr heldur þýðir það að maður hjólar út um allt..... og þegar maður hefur ekki hjólað í fjölda ára hvorki úri né í líkamsræktarstöðum verður manni heldur illt í rassinum. Ég er alveg að farast úr vöðva og rassverki.... ég hjólaði bæinn á enda fram og til baka í dag og ég er uppgefin. Ferlegt ástand á manni. En alveg þess virði ég verð bara betur undirbúin fyrir reisuna okkar Sigga seinniparts sumars.

Hlakka mikið til að sjá ykkur öll......Fer svo aftur til Danaveldis á laugardagsmorgninum.... þvílíkt upptekin pía.

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Að drukkna í reglum og fastheldni Danaveldis

Eftir að hafa verið í Danmörku hef ég komist að því að skriffinnskan og þjónustulundin hérna er alveg skelfileg. Að koma einföldustu skilaboðum á leiðarenda tekur rosalegan tíma og nákvæma pappírsvinnu.

Ég hefði nú frekar átt að lesa kommentið frá Erlu Dögg.... Ég fór náttúrulega af stað í dag til þess að ná í þetta númer og beið og beið og komst að því þegar það kom að mér að ég þurfti eitthver blöð frá Íslandi, hinsvegar var ég búin að frétta að þessi skrifstofa á að hafa samband við Ísland og redda pappírunum og ég sagði það við dömuna en hún svaraði bara til baka "Það eru kosningar á næsta leyti og við höfum engan tíma til þess að stússast í slíku, ef þú vilt CPR númerið þitt fyrir sumarið þarftu að ná í pappírana sjálf". Þá spurði ég hana hvort ég mætti ekki bara láta íslensku skrifstofuna faxa þessu til þeirra.... og daman svaraði "þetta getur ekki tekið svona stuttan tíma á Íslandi, svo er betra að þú látir senda þetta í pósti á þitt heimilisfang og komir með þetta sjálf hingað". Þvílíka vesenið á þessu liði, nennir ekki að taka á móti faxi og skilur ekki að á Íslandi hringirðu eitt símtal og þeir Faxa á stundinni fyrir þig, hvert sem er.

Fór í gærkvöldi út að borða með Róberti, sem er í viðskiptaerindum hérna í Kaupmannahöfn. Fengum rosa góðan mat en ég þurfti að biðja 4 sinnum um tómatsósu og smjör með kartöflunni..... við biðum alla máltíðina eftir þessu og á endanum þegar ég bað í síðasta sinn... þá ældi þjónninn út úr sér að þetta hafi verið pöntun og því farið með öðrum pöntunum...aftast í röðina... og allar pantanir eru afgreiddar í réttri röð..... skil þetta nú bara ekki.... við vorum löngu búin með matinn og samt var þetta ekki komið. Ég benti þeim svo fallega á þetta, þegar við greiddum reikninginn og þau bara skildu ekki hvað ég var að væla. Ótrúlegt þetta lið stundum eins og það er nú yndislegt.

Ég labbaði bæinn á enda fram og til baka í dag til að leita mér að hjóli. Á endanum fann ég mér draumahjólið. Alveg rosa fínt og á sanngjörnum díl. Því ætla ég að vakna klukkan 7 í fyrramálið og kaupa það og hjóla á því fyrsta daginn minn í skólanum. (það tekur aðeins lengri tíma hér en á Íslandi að koma sér á milli staða) Hlakka svaka til. Ég á að vera í tímum allan daginn á morgun og svo kem ég heim á fimmtudaginn í smá heimsókn vegna Framadaga sem verða nota bene á föstudaginn.

Hlakka til að sjá ykkur öll og mér finnst æði þegar þið skrifið Komment til mín, endilega haldið því áfram og endilega þið hin skrifið mér skilaboð. Það hlýjar mér svo mikið um hjartarætur þegar ég veit að ykkur er ekki alveg sama :)

Seinheppni

Núna er maður orðinn einn aftur. Halla fór í gærmorgun og ég vaknaði með henni klukkan tæplega átta. Eftir að hún var farin strengdi ég mér þess heit að "reyna" að taka ávalt daginn hérna snemma svo ég nái að njóta dagsins eins og skyldi.....einnig svo ég sofni einhvern tíman á kvöldin.

Fór í smá leiðangur í gær... þurfti að fá CPR númer og ætlaði að finna mér hjól. Lagði af stað út úr húsi um hálf ellefu labbandi, að vanda. Ég komst á staðinn þar sem þessi CPR númer eru gefin og mér til mikillar skemmtunar var sneisafullt af fólki út úr dyrum. Þetta voru flest allt múslimar og afríkubúar, ekki að það sé slæmt ég bara stakk pínu í stúfa við liðið, þó orðin dökkhærð svo munurinn var ekki svo of mikill. Ég var númer 206 í röðinni en þegar ég kom var komið að númer 128. Ég sast niður og hlustaði á tónlist í þessari mannþröng og hitasvælu. Eftir rúma tvo tíma kom loksins að mér. Konan brosti þegar hún sá mig og sagði mér fallega að ég væri á vitlausum stað.

Greit.... sem betur fer hef ég ekkert betra við tímann minn að gera en að villast og fara á vitlausa staði....

Klukkan var þarna orðin eitt og ég hefði ekki náð fótgangandi á hinn staðinn fyrir lokun. Ég hélt því för minni áfram og byrjaði að leita að búðum sem selja notuð hjól.

Ótrúlegt þegar maður spyr hjólasalana um verð þá er alltaf svarið svona".....hummm...þetta hjól... hummmm það kostar... láttu mig sjá".... og svo horfa þeir á mig.. og segja verð sem er í öllum tilfellum of hátt fyrir þá druslu sem þeir eru að bjóða mér. Maður fær á tilfinninguna að það sé misjafnt verð fyrir misjafnt fólk... fín föt, túristi, stelpa... og verðið er hærra. Ég var orðin svo frusturatuð að í síðustu búðinni bauð einn maður mér fallegt kvenmannshjól fyrir 1200 dk og ég nánast féll fyrir því... bara því hjólið var fínt... án þess að hugsa um hversu dýrt það var.

Þannig leiðangur gærdagsins skilaði litlum árangri. Í dag ætla ég að gera nákvæmlega það sama en bara að fara á "vonandi" réttu staðina.